top of page

Goðaland

Goðaland er ákaflega fjölbreytt og gróðursælt. Þar eru glæsileg fjöll, kjarri vaxnar hlíðar, litlir dalir, gil og gljúfur, margvíslegar jarðmyndanir og tröllslegt yfirbragð í fallegu landslagi. Það er stærst suðurafrétta, samt virðist það ekki vera víðáttumikið heldur ber meira á bröttum fjöllunum. Mörkin afréttariuns eru um Hvannárgil í vestri og Hrunaá í austri.

 

Nafnið hefur valdið mörgum heilabrotum og sýnist þar sitt hverjum. Var Goðaland helgað hinum fornu goðum eða var það einfaldlega góðaland og þá vísað til þess sældar sem sumarríkið er ávallt á þessum slóðum og sauðfé kom þaðan stærra og feitara en annars staðar? Fær má rök fyrir því en ljóst er þó að nafnið Goðaland kemur fyrir fornum ritum.

 

Í Njálssögu segir Flosi Þórðarson, foringi brennumanna: „Ég mun ríða upp úr Skaftártungu og fyrir norðan Eyjafjallajökul og ofan í Goðaland …“ (124. kafli Brennu-Njálssögu).

 

Í ritinu Fimmvörðuháls er lítillega fjallað um leið Flosa. Þar segir:

 

„Tvær skýringar kunna að vera á frásögn Njálu en nútímamenn eiga vægast sagt erfitt með að átta sig á henni. Sú sennilegri er að Goðaland Njálu hafi verið nafn á öðru landsvæði en nú er, hugsanlega hafi hluti þess verið þar sem nú er Þórsmörk og Almenningar. Báðir jöklarnir hafi einfaldlega verið nefndir Eyjafjallajökull. Þetta þýðir þá að Flosi hafi farið þar um Mælifellssand norðan Mýrdalsjökuls þar sem nú nefnist Fjallabaksleið syðri. Á móti kemur sú staðreynd að þar um er engin skotleið, hvorki gangandi né ríðandi.

 

Hin skýringin er sú að höfundur Njálu hafi hreinlega verið ókunnur þessum slóðum og hafi ruglað saman tveimur leiðum; annars vegar leið norðan Mýrdalsjökuls og hins vegar leið um Fimmvörðuháls. Hér er ekki við annað að styðjast en hugarflug lesanda Njálssögu sem unir sér ekki fyrr en hann hefur myndað sér nokkuð góða tilgátu.

 

Það sem er heillandi við þessa skýringu er að hugsanlega hafi landslag verið eitthvað öðruvísi fyrir „litlu ísöld“. Þá hafi verið auðvelt að fara ríðandi yfir Fimmvörðuháls niður í Goðaland.

 

Kunnugir geta bent á  þokkalega leið sem er austan við Morinsheiði og Hrunaárgil, þar sem heita einu nafni Hrunar. Þar eru nú nokkuð ógreiðar leiðir, en með svolitlu ímyndunarafli má gera ráð fyrir að aðstæður þar hafi verið betri áður en jöklar ruddust fram og breyttu landslagi. Víst er að þarna er að finna leiðir niður á láglendið.“ (Fimmvörðuháls, bls. 25).

 

Við þetta er litlu að bæta en halda má þó áfram hugarfluginu og feta sig fram fram á tæpustu brún án þess þó að tapa festu.

 

Þegar Njálssaga á að hafa gerst um árið 1000 voru jöklar á Íslandi sannarlega minni en þeir urðu síðar og jökulárnar einnig. Leið norður fyrir Mýrdalsjökul er mjög löng og undarlegt til þess að hugsa að fara frekar þá löngu leið en fara suðuleiðina. Þar sem brennumenn vildu fara leynt gátu þeir að vísu ekki farið þá leið og liggur þá beinast við að þeir hafi farið yfir Fimmvörðuháls, enda landslag þar enn óbrotið af framgangi jökla sem hófu sitt starf fjögur hundruð árum síðar. Þær hamfarir stóðu allt fram á 20. öld.

 

Gæti Goðaland fyrir um eitt þúsund árum ekki verið nafn á sama landsvæði og nú, rétt eins og Þórsmörk, sem haldið hefur stað og nafni alla tíð? Þó eru til mörg dæmi um að örnefni færst af einum stað á annan. Svona má nú skálda í eyður þegar heimildirnar vantar.

 

Á Goðalandi eru skálar Útivistar og þar eru skjólgóð og víðáttumikil tjaldsvæði. Í Básaskóg leggja fjöldi fólks leið sína á hverju sumri. Gönguleiðir eru fjölmargar og verður hér leitast við að geta þeirra helstu.

 

Í Básum eru allar gönguleiðir vel merktar. Stígar liggja í kringum Bólfellið og upp á það, með Básalæknum, í Strákagil, í Básaskörð og víðar. Hægt er að velja leiðir við hæfi, stytta og lengja gönguleiðir eftir því sem menn óska, jafnvel meðan á göngu stendur.

Gönguleiðirnar

  1. Auralda

  2. Básar

  3. Básar, yfir í Langadal

  4. Básar, að Hrunaá

  5. Básaskörð

  6. Bláfell

  7. Bólfell

  8. Búðarhamar

  9. Draugabólið við Fagraskóg

  10. Goðaland

  11. Gunnufuð

  12. Göltur

  13. Hamraskógar

  14. Hattur   

  15. Hátindar

  16. Heljarkambur

  17. Fimmvörðuháls 

  18. Hestagötur og Foldir 

  19. Húsadalur          

  20. Hvannárgil        

  21. Hvannárgil fremra           

  22. Krossárjökull     

  23. Krossárjökull syðri         

  24. Krossárjökull, nyrðri       

  25. Langidalur         

  26. Langidalur í Bása

  27. Litfari   

  28. Litli-endi

  29. Merkurbæir að Gígjökli   

  30. Merkurker         

  31. Merkurrani        

  32. Mófell  

  33. Múlatungur       

  34. Nauthúsagil       

  35. Réttarfell

  36. Réttarfell, yfir fjallið

  37. Rjúpnafell         

  38. Skerjaleiðin við Grýtutind

  39. Slyppugil          

  40. Snorraríki          

  41. Stakkholt          

  42. Stakkholtsgjá     

  43. Stakur  

  44. Stangarháls        

  45. Steinsholt         

  46. Steinsholtsjökull

  47. Stórendi

  48. Strákagil           

  49. Strákagil, Foldir, Hrunaá        

  50. Teigstungur       

  51. Tindfjöll           

  52. Tungnakvíslarjökull, N-leið    

  53. Tungnakvíslarjökull, S-leið     

  54. Útigönguhöfði    

  55. Útigönguhöfði, hringur    

  56. Útigönguhöfði, yfir hann  

  57. Valahnúkur        

  58. Valahnúkur, hringur        

  59. Þórsmörk 

  60.      

bottom of page