top of page

Gráðun gönguleiða

Gönguleiðir eru misjanflega erfiðar. Sumar eru á allra færi, aðrar krefjast meira þreks og þær eru til sem krefjast mikillar þekkingar auk líkamlegs úthalds. Hér er þó einkum greint frá þeim ferðum sem flestum ætti að vera að hæfi.  Þá er einkar þægilegt að geta borið saman leiðirnar hvað varðar lengd, tíma og hversu strembnar þær kunna að vera. Eftirfarandi gráðun gefur  ágætlega til kynna hvernig gönguleiðirnar hér í ritinu eru:

 

A Létt leið á láglendi, hindrunarlaus

B Létt gönguleið, hindrunarlítil

C Nokkuð erfið gönguleið

D Erfið gönguleið með ýmsum tálmunum

E Mjög erfið gönguleið með miklum tálmunum

 

Dæmi um gönguleið af A gráðu er til dæmis leiðin með Krossá frá Langadal í Stóraenda eða leiðin frá Básum og inn að Hrunaárbrú á Goðalandi. Slíkar gönguleiðir eru léttar og fæstum ofraun.

 

Gönguleið með lítilsháttar hindrunum er af B gráðu. Dæmi um slíka leið er gönguleiðin frá Langadal yfir í Húsadal, ganga á Valahnúk í Þórsmörk eða Básahringurinn á Goðalandi. Á þeim öllum eru lítilsháttar hindranir, t.d. brattar en stuttar brekkur sem fáum eru til trafala.

 

Ganga á flest fjöll er að minnsta kosti af C gráðu, vegna brattans. Nefna má sem dæmi göngu á Réttarfell úr Básum. Ganga á Fimmvörðuháls telst hér C gráðu ferð en jaðrar líklega við að vera D gráðu ferð vegna vegalengdar og hversu gangan tekur langan tíma.

 

Þannig getur B gráðu leið orðið að C gráðu fyrir það eitt hvað hún er löng í kílómetrum. Dæmi um slíkt er leiðin frá Langadal að nyðri Krossárjökli eða gönguleiðin frá Hrunaárbrú inn að syðri Krossárjökli.

Gönguleiðin á Rjúpnafell í Þórsmörk eða á Útigönguhöfða á Goðalandi eru dæmi um D gráðu ferðir. Hvort tveggja er að þær eru nokkuð langar og einnig eru fjöllin bæði brött og há.

 

E gráðu ferðir eru t.d. ferðir á Eyjafjallajökul eða yfir skriðjökul sem krefjast bæði þekkingar og reynslu auk þess sem  nauðsynlegt er að vera með ísbrodda á skóm, ísexi og ganga  í vað. Ganga upp Hátinda og yfir Eyjafjallajökul er dæmi um E gráðu ferð.

 

Af þessu má sjá að hér er verið að fjalla um fjölbreyttar gönguleiðir. Munurinn er þó sá að sumar gönguleiðirnar krefjast meiri reynslu og úthalds en aðrar. Hins vegar er ofangreind gráðum ekki byggð á neinum algildum vísindum heldur miklu frekar huglægum þáttum sem að sjálfsögðu eru ekki einhlýtir.

 

Vonandi taka lesendur þó viljan fyrir verkið og lýsingarnar standi að þessu leyti undir nafni.

 

Tveimur gildum má þó ekki gleyma þegar verið er að skoða gönguleiðir, því einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því að gönguferðir njóta svo mikilla vinsælda sem raun ber vitni. Hið fyrra er að gönguferðir í náttúru Íslands eru oftast mikil skemmtun og hin síðar er að æfingin skapar meistarann.

 

Þar með er komin uppskrift af sjálfbærri þróun sem hlýtur að vera öllum til góðs.

 

 

Upplýsingar í hnotskurn

Með hverri gönguleið birtar upplýsingar í örstuttu máli, sex til sjö atriði sem skilgreind eru hér: á einfaldan hátt:

 

Gönguleið 

Örstutt lýsing á gönguleiðinni. Hún getur verið fram og til baka, þ.e. sama leiðin er gengin að áfangastað og til baka aftur. Hún getur líka verið hringleið og er þá átt við að sama leiðin að áfangastað er ekki farin tvisvar. Einnig ber þess að geta að ekki er alltaf lagt upp frá þeim stað og gangan endar á.

Vegalengd 

Áætluð vegalengd í kílómetrum frá upphafi til loka.

Göngutími 

Áætlaður göngutími í klukkustundum. Miðað er við tiltölulega rólega göngu frá upphafsstað til endastaðar.  Hafa ber samt í huga að gönguhraði er mjög mismunandi.

Landslag 

Stutt lýsing á leiðinni í örfáum orðum svo lesandinn viti við hverju megi búast.

Hækkun 

Mismunur á hæð í upphafi og mestu hæð á gönguleiðinni í metrum. Alltaf er miðað við hæð yfir sjávarmáli nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Mesta hæð 

Hæð yfir sjávarmáli þar sem hæst er farið.

Gráðun 

Reynt að leggja mat á gönguleiðina. Stuðst við þá gráðun sem getið er um hér á undan.

Tengingar 

Getið er um þær gönguleiðir sem tengjast þeirri sem frá er sagt eða eru nálægar.

 

Oft er miðað við að frískur göngumaður geti gengið um það bil sex kílómetra á klukkustund. Fæstir ganga þannig enda oftast ekki markmiðið að komast sem lengst á sem skemmstum tíma. Skemmtunin felst fyrst og fremst í því að njóta, skoða sig um, stoppa og athuga blóm, skordýr, jarðmyndanir, kynnast örnefnum, spjalla við ferðafélagana eða horfa til himins. Um þetta er fjallað hér á vefnum, einfalda en fjölbreytta skemmtun úti í náttúrunni.

Gönguleiðirnar

  1. Auralda

  2. Básar

  3. Básar, yfir í Langadal

  4. Básar, að Hrunaá

  5. Básaskörð

  6. Bláfell

  7. Bólfell

  8. Búðarhamar

  9. Draugabólið við Fagraskóg

  10. Goðaland

  11. Gunnufuð

  12. Göltur

  13. Hamraskógar

  14. Hattur   

  15. Hátindar

  16. Heljarkambur

  17. Fimmvörðuháls 

  18. Hestagötur og Foldir 

  19. Húsadalur          

  20. Hvannárgil        

  21. Hvannárgil fremra           

  22. Krossárjökull     

  23. Krossárjökull syðri         

  24. Krossárjökull, nyrðri       

  25. Langidalur         

  26. Langidalur í Bása

  27. Litfari   

  28. Litli-endi

  29. Merkurbæir að Gígjökli   

  30. Merkurker         

  31. Merkurrani        

  32. Mófell  

  33. Múlatungur       

  34. Nauthúsagil       

  35. Réttarfell

  36. Réttarfell, yfir fjallið

  37. Rjúpnafell         

  38. Skerjaleiðin við Grýtutind

  39. Slyppugil          

  40. Snorraríki          

  41. Stakkholt          

  42. Stakkholtsgjá     

  43. Stakur  

  44. Stangarháls        

  45. Steinsholt         

  46. Steinsholtsjökull

  47. Stórendi

  48. Strákagil           

  49. Strákagil, Foldir, Hrunaá        

  50. Teigstungur       

  51. Tindfjöll           

  52. Tungnakvíslarjökull, N-leið    

  53. Tungnakvíslarjökull, S-leið     

  54. Útigönguhöfði    

  55. Útigönguhöfði, hringur    

  56. Útigönguhöfði, yfir hann  

  57. Valahnúkur        

  58. Valahnúkur, hringur        

  59. Þórsmörk 

  60.      

bottom of page