top of page

Þórsmörk

Yfirbragð Þórsmerkur er um margt mýkra og vinalegra en landsins sunnan Krossár en um leið er það ekki eins stórbrotið. Gróður er þar óumdeilanlega meiri og kjarrið klæðir sundurskorið landið. Þetta land er fjallshryggur sem gengur austan frá Mýrdalsjökli og breikkar, lækkar og mjókkar eftir því sem vestar dregur. Vestast hefnist hann Merkurrani. Þar sem skjól er best hefur birkikjarr náð að vaxa en ofar eru víðast bert land og þar hefur uppblástur geysað lengi.

 

Nafnið Þórsmörk varð snemma til og er þess getið í fornbókmenntum. Í Landnámu segir:

 

Ásbjörn Reyrketilsson og Steinfiður bróðir hans námu land fyrir ofan Krossá fyrir austan Fljót. Steinfiður bjó á Steinfinnsstöðum, og er ekki manna frá honum komið. Ásbjörn helgaði landnám sitt Þór og kallaði Þórsmörk.“ Landnáma, 89. kafli.

 

Hér getur ekki verið um annan stað að ræða en þann sem við þekkjum sem Þórsmörk.

 

Einn frægasti og jafnframt skemmtilegasti atburður í Njálssögu er án efa þegar Kári Sölmundarson leitar eftir brennuna til Björns í Mörk. Segir þar:

 

Kári reið nú vestur fyrir Seljalandsmúla og upp með Markarfljóti og svo upp í Þórsmörk. Þar eru þrír bæir er í Mörk heita allir. Á miðbænum bjó sá maður er Björn hét og var kallaður Björn hvíti. Hann var Kaðalsson, Bjálfasonar. Bjálfi hafði verið leysingi Ásgerðar móður Njáls og Holta-Þóris. Björn átti þá konu er Valgerður hét. Hún var Þorbrandsdóttir, Ásbrandssonar. Móðir hennar hét Guðlaug. Hún var systir Hámundar föður Gunnars að Hlíðarenda. Hún var gefin til fjár Birni og unni hún honum ekki mikið en þó áttu þau börn saman. Þau áttu gnóttir í búi. Björn var maður sjálfhælinn en húsfreyju hans þótti það illt. Hann var skyggn og skjótur á fæti. Þangað kom Kári til gistingar og tóku þau við honum báðum höndum. Var hann þar um nóttina. Um morguninn töluðust þeir við.

 

Kári mælti til Bjarnar: „Það vildi eg að þú tækir við mér. Þykist eg hér vel kominn með þér. Vildi eg að þú værir í ferðum með mér er þú ert maður skyggn og frár enda ætla eg að þú munir öruggur til áræðis.“

 

„Hvorki frý eg mér,“ segir Björn, „skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól. En við áskorun þína Kári,“ segir Björn, „þá skal ekki gera þig líkan hversdagsmönnum. Skal eg víst verða þér að liði öllu slíku sem þú beiðir.“

 

Húsfreyja hans varð áheyrsla og mælti: „Tröll hafi þitt hól,“ sagði hún, „og skrum og skyldir þú eigi mæla ykkur tál báðum og hégóma í þessu. En gjarna vil eg veita Kára mat og aðra góða hluti þá er eg veit að honum má gagn að verða. En á harðræði Bjarnar skalt þú Kári ekki treysta því að eg uggi að þér verði að öðru en hann segir.“

 

Björn mælti: „Oft hefir þú veitt mér ámæli en eg treysti mér svo vel að eg mun fyrir engum manni á hæl hopa. Er hér raun til að því leita fáir á mig að engir þora.“  Njálssaga, 148. kafli.

 

Síðar í Njálssögu segir:

 

Kári talar nú við Björn: „Við skulum ríða austur um fjall og ofan í Skaftártungu og fara leynilega um þingmannasveit Flosa því að eg ætla að koma mér utan austur í Álftafirði.“

Björn mælti: „Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og eg.“

Húsfreyja mælti: „Ef þú fylgir Kára illa þá skalt þú það vita að aldrei skalt þú koma í mína rekkju sinn síðan. Skulu frændur mínir gera fjárskipti með okkur.“

„Það er líkara húsfreyja,“ segir Björn, „að fyrir öðru þurfi ráð að gera en það beri til skilnaðar okkars því að eg mun mér bera vitni um það hver garpur eða afreksmaður eg er í vopnaskipti.“ Njálssaga 150. kafli.

 

Í stuttu máli dugði Björn Kára í hremmingum hans en karlinn var viss um að kona sín tryggði sér ekki og segir svo frá í sögunni:

 

Nú er að segja frá Birni og Kára að þeir ríða á sand og leiða hesta sína undir melbakka og skáru fyrir þá melinn að þeir dæju eigi af sulti. Kári varð svo nærgætur að hann reið þegar í braut er þeir hættu leitinni. Hann reið um nóttina upp eftir héraðinu og síðan á fjall og svo alla hina sömu leiðsem þeir riðu austur og léttu eigi fyrr en þeir komu í Mið-Mörk.

 

Björn mælti þá til Kára: „Nú skalt þú vera vin minn mikill fyrir húsfreyju minni því að hún mun engu orði trúa því er eg segi en mér liggur hér nú allt við. Launa þú mér nú góða fylgd er eg hefi þér veitta.“

 

„Svo skal vera,“ segir Kári.

 

Síðan riðu þeir heim á bæinn. Húsfreyja spurði þá tíðinda og fagnaði þeim vel.

 

Björn svaraði: „Aukist hafa heldur vandræðin kerling.“

 

Hún svarar fá og brosti að. Húsfreyja mælti þá: „Hversu gafst Björn þér Kári?“

 

Hann svarar: „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Björn mér vel. Hann vann á þremur mönnum en hann er þó sár sjálfur. Og var hann mér hinn hallkvæmasti í öllu því er hann mátti.“ Njálssaga, 159. kafli.

 

Margir hafa haldið því fram að höfundur Njálu hafi sökum ókunnugleika staðsett þessa þrjá bæi inni í Þórsmörk og telja að hér sé um að ræða þá þrjá bæi sem eru undir norðanverðum Eyjafjöllum og eru enn kenndir við Mörkina. Um þetta hefur lengi verið deilt og verður eflaust enn lengur og langt í frá að allir verði á einu máli. Þó telst undarleg ef höfundur Njálu hafi farið rangt með bæi inni í Mörk en ekki á öðrum slóðum sem þó eru ekki svo ýkja fjarri.

 

Þuríðarstaðir eru fornt bæjarstæði skammt vestan við Húsadal. Ekki er vitað hver sú Þuríður var sem bærinn var kenndur við en tengdadóttir landnámsmannsins hét þó Þuríður Gollnisdóttir. Önnur bæjarrúst hefur fundist á Merkurrana, um hálfan kílómetra suðvestan við Þuríðarstaði. Þarna er land mjög blásið þó reynt hafi verið að græða það upp á síðustu árum. Rústirnar hafa verið nefndar Þuríðarstaðir efri eftir því sem Þórður í  Skógum segir í riti sínu Þórsmörk. Hann gerir að því skóna að þarna gæti allt eins verið fundinn bær Ásbjarnar landnámsmanns.

 

Frásagnir um Þórsmörk í fornbókmenntum Íslendinga svo fátæklegar að heillega mynd er þar ekki að fá. Frá miðöldum fást þó meiri og ítarlegri upplýsingar og um allt þetta má lesa í bókinni hans Þórðar Tómassonar.

 

Gönguleiðir eru margar í Þórsmörk. Þeim má skipta í tvo hluta og er þá miðað við leiðir sitt hvorum megin við Langadal. Annars vegar eru það leiðir á Valahnúk, í Húsadal og vestur með Merkurrana. Hins vegar er um að ræða gönguleiðir inn með Krossá og upp frá henni t.d. að Rjúpnafelli, Mófelli og í Hamraskóga.

 

Áfangastaðir frá Langadal og inn að Krossárjökli má telja fimm. Gangan inn að Krossárjökli er nokkuð löng og þykir það góður dagur að fara þá leið fram og til baka.

 

Fyrsti áfangastaðurinn er Slyppugil og er rétt innan við Langadal. Þar fyrir innan við þrjú lítil gil sem Þórður Tómasson segir í bók sinni Þórsmörk að heiti Fremstagil, Miðgil og Innstagil. Fæstir ferðamenn þekkja þessi örnefni enda finnast þau ekki á kortum. Fremstagil er stærsta gilið og rétt innan við Slyppugil. Það er stundum nefnt Bolabás. Miðgil og Innstagil eru mjög lítil gil næst Litlaenda. Annar áfangastaðurinn er Litlendi og sá þriðji Stórendi. Fjórði áfangastaðurinn er Búðarhamar og sá fimmti er Krossárjökull. Þessir staðir eru miklu meira en áfangastaðir, því frá þeim öllum má finna gönguleiðir sem lengt geta leiðina frá Langadal og gert úr henni hringleið. 

Gönguleiðirnar

  1. Auralda

  2. Básar

  3. Básar, yfir í Langadal

  4. Básar, að Hrunaá

  5. Básaskörð

  6. Bláfell

  7. Bólfell

  8. Búðarhamar

  9. Draugabólið við Fagraskóg

  10. Goðaland

  11. Gunnufuð

  12. Göltur

  13. Hamraskógar

  14. Hattur   

  15. Hátindar

  16. Heljarkambur

  17. Fimmvörðuháls 

  18. Hestagötur og Foldir 

  19. Húsadalur          

  20. Hvannárgil        

  21. Hvannárgil fremra           

  22. Krossárjökull     

  23. Krossárjökull syðri         

  24. Krossárjökull, nyrðri       

  25. Langidalur         

  26. Langidalur í Bása

  27. Litfari   

  28. Litli-endi

  29. Merkurbæir að Gígjökli   

  30. Merkurker         

  31. Merkurrani        

  32. Mófell  

  33. Múlatungur       

  34. Nauthúsagil       

  35. Réttarfell

  36. Réttarfell, yfir fjallið

  37. Rjúpnafell         

  38. Skerjaleiðin við Grýtutind

  39. Slyppugil          

  40. Snorraríki          

  41. Stakkholt          

  42. Stakkholtsgjá     

  43. Stakur  

  44. Stangarháls        

  45. Steinsholt         

  46. Steinsholtsjökull

  47. Stórendi

  48. Strákagil           

  49. Strákagil, Foldir, Hrunaá        

  50. Teigstungur       

  51. Tindfjöll           

  52. Tungnakvíslarjökull, N-leið    

  53. Tungnakvíslarjökull, S-leið     

  54. Útigönguhöfði    

  55. Útigönguhöfði, hringur    

  56. Útigönguhöfði, yfir hann  

  57. Valahnúkur        

  58. Valahnúkur, hringur        

  59. Þórsmörk 

  60.      

bottom of page