top of page

Gönguleiðir - upp að hálfu

Útsýni til norðurs ofarlega í Vífilsfelli. Í fjarska er Esja, Móskarðshnúkar, Skálafell, Langjökull Skjaldbreið og Hengill, svo eitthvað sé nefnt.

1 - Fjölfarnasta gönguleiðin
Gönguleiðin upp norðausturhornið er án efa sú vinsælasta. Hún hefur nokkra góða kosti og sá helsti að sporléttir eru þarna fljótir upp. 
 
Stærsti gallinn er að enn er gengið í gegnum malarnámið sem er eiginlega óásættanlegt á virkum dögum. Þá er mikil umferð stórra flutningabíla og eiginlega hættulegt að vera þar á ferð.
 
Leiðin upp er afar brött, sums staðar er hún æði hörð undir fæti sem getur verið vont á niðurleið. Auk þess hefur umferð grafið gönguleiðina niður á kafla og skemmt hluta af mosabreiðunni sem er uppi við brún.

 

Á brúninni er varða sem margir göngumenn leggja stein í sér til fararheilla. Gangan upp tekur um það bil fjörutíu mínútur og er þá frekar hægt farið.

Gönguleiðin rétt fyrir neðan brún Sléttunnar. Þar hefur mosinn troðist niður en nú hafa Vinir Vífilsfells stika gönguleið sem vonast er til að hlífi það sem eftir er af honum.Hins vegar er eftir að taka grjót úr göngustígnum og gera þrep.

Tvær gönguleiðir upp á Sléttu. Sú rauða er vinsælust, en bláa leiðin er skemmtileg að sumarlagi.

2 - Axlarleiðin

Þessi leið er talsvert léttari en norðausturleiðin. Upphaf hennar er á bílastæðinu fyrir utan malarnámið. Gengið er inn það en fljótlega er beygt til hægri, vesturs og að litla fellinu sem nefnt er Vífilsfellsöxl. Gönguleiðin er merkt með bláum lit á myndinni með kaflanum hér fyrir ofan. Hún liggur upp í skarðið á milli axlarinnar og Vífilsfells og skáhallt upp á hlíðina eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Þar má krækja fyrir stóran móbergsklett með því að fara beint upp fyrir hann eða hægra megin. Fyrrnefnda leiðin er betri, upp gilið er engin mosi.

 

Þarna sameinast þrjár leiðir, Axlarleiðin, Ölduhornsleiðin og gönguleiðin yfir Vífilsfellsöxl (leið nr. 7), en af síðastnefndu leiðinni er myndin tekin.

 

Mörgum finnst þessi leið betri en um norðausturhornið. Víst er að brekkan upp úr skarðinu og upp á „Sléttu“ er ekki eins brött. Þess ber þó að geta að oft er ekki gott að fara þarna upp að vetrarlagi. Þá safnast snjór í brúnina og hætta er á snjóflóði.

 

Uppi á „Sléttu“ er stikuð leiða að móbergshryggnum en þar er uppgangan auðveldust.

Efri litla myndin er tekin úr gönguleiðinni upp norðausturhornið og horft til Vífilsfellsaxlar og inn á hana hefur gönguleiðin, sem hér er nefnd Axlarleiðin, verið merkt.

Neðri myndin er tekin nálægt leiðamótum í skarðinu.

Myndin er tekin á „Ölduhornsleiðinni“ uppi í hlíðinni rétt fyrir neðan „Sléttu“. Þaðan er tignarlegt útsýni. Hið næsta eru furðulegar myndanir í móberginu, fjær er Vífilsstaðaöxl og enn fjær er Mosfellsheiði, Esja, Móskarðshnúkar, Skálafell, Botnsúlur og Skjaldbreið, svo eitthvað sé talið.

Hér er gönguleiðin frá Öldusteini og að skarðinu milli Vífilsfells og Axlarinnar. Aðeins hluti leiðarinnar sést hér en hinn hlutinn er á næstu mynd til hægri.

3 - Ölduhornsleiðin

Ölduhorn nefnist staður við gamla Suðurlandsveginn, að minnsta kosti samkvæmt landakorti. Hann er ennþá fær flestum bílum ef hægt og rólega er farið. Þarna er ágæt byrjun á fallegri gönguleið.

 

Annars vegar liggur leiðin um Vífilsfellskrók, sem er lítið dalverpi, og upp í skarðið, inn á gönguleið 2, Axlarleiðina.

 

Hægt er að lengja örlítið leiðina með því að ganga upp Vífilsfellsöxl, yfir hana, ofan í skarðið og þaðan upp á „Sléttu“. Þetta er fáfarin en góð gönguleið og afar falleg. Á kortinu er hún merkt með tölustafnum „7“. 

 

Og hvað er Ölduhorn? Erfitt er að ráða í hvort það er hæð í landslaginu eins og landakort bendir til. Líklegra er þó að það sé sandsteinsklettur á rana sem gengur vestan úr Vífilsstaðaöxl. Steinninn er sérkennilegur og stingur í stúf við allt landslagið í kring að mikið má vera ef hann er ekki hinn eini og sanni Öldusteinn.

Þarna liggur leiðin inn í gilið og upp í skarðið og þaðan upp á „Sléttu“.

 Hér eru tvær myndir af Öldusteini. Sú efri er af honum norðan megin en neðri myndin er af honum sunnan megin. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að líkja steininum við öldu.

Sunnan Vífilsfells eru tvö gil og er betra að ganga upp það sem er fjær. Gilið sem næst er fjallinu er nær ófært, bæði er bratt upp úr því og einnig er hlíðin beggja vegna frekar hörð undir fæti. Sama er með fellið á milli giljanna, það er ekki ófært en erfitt yfirferðar, bæði upp og niður.

4 - Vesturleiðin, gilið

Ein skemmtilegasta leiðin á Vífilsfell en varla sú auðveldasta er um gilið sunnan við tindinn. Tiltölulega stuttur gangur er frá malarnámunni vestan við fjallið en þar er ágætt að leggja bílnum. 

 

Dálítill spölur er að gilinu. Sjálft gilið er nokkuð grýtt, ekki mjög bratt fyrr en komið er innarlega í það. Haldið er upp brattann og beygt til vinstri, norðurs, um miðja brekku. Þar er dálítill hliðarhalli þangað til komið er að móbergshlíðinni undir tindinum. 

 

Þarna, í hlíðinni eru eitt afar sérkennilegar móbergsmyndanir sem óvíða er að finna. Að auki er gönguleiðin á tindinn einstaklega falleg, hvort heldur valin er leið sem merkt er G, H eða I.

Hér fyrir ofan eru tvær myndir teknar á ólíkum tíma, eins og sjá má. Auðvelt er að ganga upp gilið þegar snjór er í því og hann ekki mjög harður. Þegar snjórinn er horfinn er dálítið klungur í gilinu en það er síður en svo ófært. - 

Bratt er upp úr gilinu en skást er að ganga ofarlega til vinstri, það leiðir að sjálfu sér þegar komið er á staðinn. 

Þegar upp er komið blasir við fögur sýn til „Móbergshryggsins“ og toppsins. Á milli er fagurt svæði sem sést þó ekki á myndinni og raunar ekki fyrr en komið er að því.

bottom of page