Vinir Vífilsfells
Við erum nokkur sem höfum í mörg ár gengið á Vífilsfell okkur til ánægju ... og fyrir kemur að ánægjan hafi breyst í mikið erfiði og jafnvel tóm vandræði. Alltaf hefur þó ræst úr öllu og við komið tiltölulega heil á húfi niður og til baka.
Við erum Vinir Vífilsfells. Allir mega vera með, skreppa í eina ferð, merkja gönguleið eða álíka.
Áhugamál okkar er meðal annars að halda út þessari vefsíðu. Okkur þykir einnig mikilvægt að gerð verði þokkaleg bílastæði við helstu uppgönguleiðir og helst að koma þar upp upplýsingaskiltum. Einnig þarf að stika göngleiðir og koma fyrir vegprestum (vegvísum). Allt til þess að gera ferðir á fjallið öruggari og helst dálítið skemmtilegri og að gönguleiðirnar skemmi ekki umhverfið.
Myndir á vefnum eru teknar í mörgum gönguferðum yfir langan tíma. Þær voru ekki teknar með það fyrir augum að búa til vef, sú hugmynd kom löngu síðar. Hins vegar eru þær vonandi góður vitnisburður um skemmtilegar ferðir á þetta fallega fjall. Héðan í frá verður þess gætt að taka góðar myndir og skipta út þeim sem hér eru ekki nógu góðar fyrir nýjar. Um leið væri gaman ef lesendur, sem eiga góðar myndir myndu vilja leyfa afnot af þeim.
Vefurinn mun óhjákvæmilega taka breytingum eftir því sem ábendingar og athugasemdir berast og reynt verður að stækka hann eftir því sem meira efni berst.



Vefurinn
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigurður Sigurðarson
Sími: 864 9010
Netfang: sigurdur.sigurdarson@simnet.is
Sérstakar þakkir
Guðbergur Davíð Davíðsson, kvikmyndagerðarmaður, hefur haft óskiptan áhuga á verkefninu og farið með ritstjóra fjölda ferða á Vífilsfell, sumar og vetur.