Sléttan
Eins og sjá má á myndunum er hin svokallaða Slétta ekki alveg slétt en nægilega þó til að þola nafnið. Frá vörðunni er stuttur gangur að Móbergshryggnum og hægra megin á honum situr toppurinn.
Gott er að komast upp á Sléttu og kasta þar mæðinni, hvort heldur gengið er eftir leiðum sem merktar eru á kortinu með tölustöfunum 1, 2, 3 eða 6. Þær liggja allar þangað upp. Hækkunin er víðast í kringum 280 m.
Eftir að hafa klárað fyrri hluta leiðarinnar virðist nú seinni hlutinn lítið mál. Fátt er hins vegar eins og sýnist.
Sléttan er einstakur staður. Hún er stapinn sjálfur sem aldrei varð stærri. Móbergshryggurinn er hins vegar mun yngri eins og fram kemur í kaflanum um jarðfræðina.
Það sem við köllum Sléttu er um 0,3 km2 að stærð og ummálið er um 2,2 km.
Vegalengdin frá vörðu og að Móbergshryggnum er rétt rúmlega fimm hundruð metrar. Breiddin frá suðaustri til norðvesturs er hins vegar aðeins meiri eða um sjöhundruð og áttatíu m. Þetta þykir kannski ekki merkilegt en allt breytist þegar komið er á staðinn. Hún virðist stærri en hún er.
Tvær efstu myndirnar eru teknar frá vörðunni á brúninni við uppgönguna norðaustanmegin, á leið nr. 1.
Þriðja myndin er tekin í hömrunum fyrir neðan toppinn og er horft í suðaustur, yfir Sléttuna og í fjarska er Hengill. Gufurstrókar í nágrenni við Koviðarhól líða upp til himins í logninu.
Fjórða myndin er tekin í austur. Nokkrir göngumenn eru við brún Sléttunnar. Í baksýn er einn Sauðdalahnúka, líklega rétt tæplega 600 m hár.
Fimmta myndin er tekin norðan megin á Sléttunn. Þar hefur einhvern tímann hrunið úr Toppnum og sitja á Sléttunni nokkrir móbergsklettar. Nýfallinn snjórinn setur framandi blæ á umhverfið. Þetta er eiginlega svart-hvít mynd ef ekki væri fyrir bláa húfu göngumannsins.




