Gönguleiðirnar
Á kortinu eru helstu gönguleiðir á Vífilsfell og umhverfis fjallið. Bláa leiðin telst vera meginleið og aðrar gönguleiðir tengjast henni.
Helstu gönguleiðir á Vífisfell eru þessar, sjá kort:
-
Norðausturhornið sem er algengasta leiðin
-
Ölduhorn, áhugaverð og falleg
-
Gilið, afar fáfarin en stórfalleg
-
Páskabrekka, tiltölulega létt leið
-
Kirkjan, þægleg leið, tvískipt
Aðkoman að gönguleiðunum er misjöfn. Malarnáman norðan við fjallið er enn í fullri notkun. Um hana aka stórir flutningabílar, þyrla upp ryki og þar er raunar lítið gaman að ganga á virkum degi. Gönguleiðin (1) í gegnum námuna er merkt með strikalínu þar sem ekki er mælt með henni. Betra er að fara austan við fjallið, þar sem leiðir 1 og 5 mætast á kortinu.
Að bílastæðinu við Ölduhornsleiðina er farið eftir gamla suðurlandsveginu. Hann er nokkuð grýttur en þó fær sé hægt ekið.
Að vesturleiðinni, leið 4, eru tvær aðkomur. Sú betri er gamall vegur að námu rétt sunnan við Sandskeið. Hann er fær öllum bílum. Þaðan er rétt um 1,4 km gangur að gilinu. sunnar er hægt að komast að lítilli malarnámu og þar er aðeins styttra að gilinu. Lítill tímasparnaður er þó í því að brölta á jeppa þessa leið, vegurinn er slæmur.
Vegurinn inn í Jósefsdal er orðinn svo slæmur að hann er aðeins jeppafær. Þar er upphaf gönguleiða 1 og 5.

Kortin og loftmyndirnar eru byggð á stafrænum gagnagrunni Landmælinga Íslands, IS 50V.
Allar merkingar, svo sem örnefni, vegarslóðar og fleira er unnið af ritstjórn vefsins.
Efri hlutinn

Myndin er af efri hluta Vífilsfells, svokölluðum Móbergshrygg og toppnum. Inn á það hafa gönguleiðirnar verið merktar. Athugið að bláa leiðin er megingönguleið, liggur þvert yfir fjallið.Leiðir á Móbergshrygginn og toppinn eru þessar:
A. Þetta er aðalgönguleiðin, sú hefðbundna. Gengið er að toppnum, farið upp þar sem er dálítið torleiði en ætti þó að vera flestum fært. Leiðin er vel stikuð og er eiginlega yfir allan toppinn og raunar út á útsýnisstaðinn sem merktur er A5.
A2. Þetta er sprunguleiðin sem svo er kölluð. Stikunum vestur með klettunum er fylgt og þá verður fyrir sprunga í klettaveggnum sem farið er upp í. Hún er frekar þröng, betra að þaka af sér bakpokann og skutla honum upp á brún. Þegar þangað er komið er stokkið yfir sprunguna og heldið inn á leið A,
A3. Þetta er tiltölulega auðveld leið, ágætt að breyta stundum um. Þarna er gengiðm með austurhlið toppsins og komið loks inn á leið A.
A4. Framhald gönguleiðarinnar í vestur frá toppnum. Dálítið klungur en auðvelt yfirferðar.
A5. Þarna eru krossgötur ef svo má kalla. Örstutt er út á stórfallegan útsýnisstað þar sem horft er til vesturs. Hins vegar er afar bratt þarna niður.
B. Hér er gengið út á fallegan útsýnisstað á suðausturhluta móbergshryggsins. Einstakur staður og mikið útsýni.
C. Þetta er ein erfiðasta leiðin á toppinn, talsvert brött en þó afar auðveld yfirferðar.
D. Gönguleiðin er ekkert sérstaklega merkileg nema tenging hennar við leiðina sem mert er með punktalínum. Vinstra megin er gengið eftir móbergsklettum og útsýnið er magnað.